Starfsdagar

2018-2019

Sumarlokun 2019

Sumarlokun leikskólans 2019 verður 10. júlí til 7. ágúst að báðum dögum meðtöldum.

Leikskólinn opnar aftur fimmtudaginn 8. ágúst.

Leikskólastarf

Einkunnarorð

InngangurEinkunnarorð Rauðhóls eru VINÁTTA VIRÐING VELLÍÐAN

Vinátta

Við leggjum ríka áherslu á vináttu og náungakærleika í öllu starfinu í leikskólanum. Við teljum það vera mjög mikilvægan þátt í lífi allra eintaklinga, barna jafnt sem fullorðinna. Það skiptir miklu máli að við fullorðna fólkið séum vakandi fyrir þeim vináttusamböndum sem mörg börnin eru að stofna til í fyrsta sinn. Við þurfum að leiðbeina þeim og kenna hve mikils virði vinátta er. Við erum vinaleikskólinn Rauðhóll og höfum vinafund einu sinni í viku þar sem við komum saman í sal og skemmtum okkur saman.

Virðing

Sjálfsvirðing er mjög mikilvæg hverjum einstaklingi. Öll erum við einstök og við verðum að bera virðingu fyrir öllum einstaklingum. Einnig leggjum við ríka áherslu á umhverfisvernd og virðingu fyrir umhverfi okkar.

Vellíðan

Vinátta og virðing fyrir sjálfum sér og öðrum leiðir til vellíðunnar. Ef okkur líður vel þá eigum við auðveldara með að gefa af okkur. Líkamleg hreysti og heilbrigði er einnig mikilvægur þáttur í að okkur geti liðið vel. Því bjóðum við upp á mikla útiveru og hollan og næringaríkan mat.

Dagskipulag

DAGSKIPULAG

07:30 - 8.30  Leikskólinn opnar róleg stund
08.30 - 9.30 Morgunverður í sal og frjáls leikur
09.30 - 9.40 Samvera
09.40 - 11.20 Leikur úti og inni hjá yngri börnum.
09.40 - 12.00 Leikur úti og inni hjá eldri börnum
11.20 - 11.55 Matur yngri barna í sal
12.00 - 12.40 Matur eldri barna í sal
12.00 - 14.00 Hvíld og rólegheit hjá yngri börnum
12.40 - 13.30 Hvíld og rólegheit hjá eldri börnum
13.30 - 16.00 Leikur úti og inni með kaffitíma þegar hentar
14.40 - 17.00 Leikur úti og inni
Ávextir yfir daginn, og alltaf seinnipartinn.

Leikurinn

Leikurinn er eitt mikilvægasta tjáningarform barna. Leikurinn er sköpun þar sem börnin koma fram á eigin forsendum, opna sig og takast á í samskiptum. Við leggjum mikla áherslu á að leikurinn fáið notið sín sem best í leikskólanum því gefum við honum mikinn tíma og rými. Við notum opinn efnivið sem býður ekki upp á fyrirfram ákveðnar lausnir heldur krefst hann hugmyndaflugs og sköpunar hjá börnunum. Það er mikilvægt að foreldrar og kennarar finni barnið í sjálfum sér og geti nálgast þau í leiknum og haft gaman með þeim.

Náttúran

Leikskólinn er umkringdur frábærri náttúru sem býður upp á fjölmörg tækifæri til könnunar og uppgötvunar. Með okkar hjálp læra börnin að njóta og virða umhverfi sitt. Leikskólalóðin er ævintýraheimur fyrir börn, með margskonar ögrandi viðfangsefnum. Stefnan er að sækja um að verða leikskóli á grænni grein og því verður leikskólinn að setja fram fimm megin markmið í umhverfisvernd og stofna umhverfisnefnd. Kennum við börnunum að auðlyndir landsins eru ekki óendanlegar því spörum við vatn, rafmagn o.fl. Allt rusl er flokkað og reynt að endurnýta í leik og starfi. Börnin læra mest af því sem þau upplifa því verðum við, foreldrar og kennarar, að vera samkvæm sjálfum okkur og ganga fram sem góð fyrirmynd.

Vinátta

Við leggjum áherslu á vináttu og kærleika í allri okkar vinnu. Vinahugtakið er mikið notað í daglegu tali innan skólans og við tölum um að við séum á vinaleikskóla. Þegar við hittumst á sal og gleðjumst saman köllum við það vinafund. Við viljum að börnin geti treyst okkur og fundið að við höfum áhuga á þeirra upplifun og erum góðir hlustendur. Því verðum við að geta mætt þeim í leik og starfi sem félagar, upplifa þeirra heim og vera virkir þátttakendur.

Opið leikefni

Opið leikefni eins og kubbar, leir, vatn, sandur, málning, litir, skæri o.fl. bjóða ekki upp á fyrirfram ákveðnar lausnir eins og hefðbundin leikföng gera oft. Þessi efniviður er góð viðbót við þau leikföng sem börnin eiga heima hjá sér.  Þau læra frekar að bjarga sér með opið leikefni og hugmyndaflug þeirra eykst í leik.

Tákn með tali

Við notum “tákn með tali” sem er gert með því að sýna einföld tákn með höndunum samhliða málinu og er ætlað að leggja áherslu á aðal innihald hverrar setningar. Tákn með tali er notað til að auðvelda þeim börnum að hafa tjáskipti, sem af einhverjum ástæðum eiga erfitt með mál. Við syngjum mikið með táknum og öll börn og kennarar eiga sitt eigið tákn. Þeir sem vilja kynna sér tákn með tali, betur geta farið inn á vefinn www.tmt.is

Foreldrasamstarf

Til þess að leikskólinn nái þeim árangri sem hann ætlar sér teljum við að samstarfið við foreldra verði að vera mjög náið og traust. Foreldrar þekkja börnin sín best og þeirra þarfir því leggjum við mikla áherslu á gott foreldrasamstarf.

Heilsa og kveðja

Það er mikilvægt að börnum og foreldrum finnist þau vera velkomin í leikskólann. Starsfólk leikskólans heilsar börnunum vel þegar þau koma og kveðja þau þegar þau fara. Við biðjum foreldra að fylgja börnunum alltaf til kennara þegar þau koma og láta vita þegar þau fara.